Grein birt í fréttblaði Heyrnarhjálpar í desember 2010
Niðurstaða könnunar um notkun hjálpartækja
Á haustdögum 2010 var send könnun um notkun hjálpartækja hjá félögum
Félags Heyrnarlausra. Alls var sent út til 177, eða allra á skrá sem voru með
heimili skráð á Íslandi skv. Lista hjá Félagi heyrnarlausra. Svarhlutfallið var
43%, þar af 57% karlmenn og 42% konur, einn gaf ekki upp kyn. Af þeim
karlmönnum sem fengu könnunina var svarshlutfallið 46% en 38% hjá konur, þetta
sýnir að ívið fleiri karlmenn sýndu áhuga á að svara könnuninni.
Þegar horft er á aldurshlutfall svarenda þá
eru 76% fæddir fyrir 1970 en af þeim eru flestir fæddir á árabilinu 1960-1969
eða 36% allra svarenda. Ekki var vitað um aldursdreifingu hópsins í heild og
því ekki hægt að sjá hvort einn aldurshópur svarar betur en annar.
Þegar horft er á hversu margir, af þeim sem
svöruðu, nota heyrnartæki daglega þá eru það 51% en 49% nota ekki heyrnartæki
daglega. Ekki var athugað af hvaða ástæðu fólk velur að nota ekki heyrnartækin.
Þar sem að könnunin var nafnlaus var ekki unnt að skoða heyrn svarenda. Af þeim
sem gefa upp aldur heyrnartækjanna virðist meðalaldur tækjanna vera um 5 ár.
Þegar horft er að notkun hjálpartækja þá
breytist þetta örlítið en svörunin var ekki alveg jafn skýr þar. Nokkuð var um
að fólk svaraði “nei” en fyllti svo út hvaða hjálpartæki þau nota. Ef eingögnu
er horft á hvernig fólk svaraði spurningunni um hvort þau notuðu hjálpartæki,
önnur en heyrnartæki, þá er 61% sem segjast nota hjálpartæki en 37% sem ekki
nota hjálpartæki. Hins vegar þegar skoðað er hve margir fylla í notkun á
einhvers konar hjálpartækjum eru það 83% en 17% sem ekki nota nein hjálpartæki.
(Ljóst er að einhver misskilningur hefur orðið en erfitt getur verið að koma í
veg fyrir það í svona könnunum).
Þegar horft er á hvaða hjálpartæki svarendur
segjast nota er vekjaraklukka efst eða notuð af 72% þeirra sem eru með einhvers
konar hjálpartæki. Hjálpartæki við dyrabjöllu er notað af 64%. Sú tala sem mesta
athygli vakti voru reykskynjarar en var aðeins 36% eiga reykskynjara. Barnavaki
er notaður í 16% tilfella, tónmöskvi í 7% og önnur hljálpartæki voru 5%.

Þegar horft er á aldur hjálpartækjana eru
yfir helmingur eða 60% svarenda sem höfðu keypt einhver hjálpartæki á sl. 5
árum. En 75% höfðu keypt hjálpartæki á sl. 10 árum. En geta má sér til að því
lengra sem liðið er síðan hjálpartæki voru keypt síðast því meiri þörf er að
upplýsa þá einstaklinga um hvað er til og hvaða nýjungar hafa komið síðan þeir
keyptu hjálpartæki síðast

Ánægja með hjálpartækin virðist vera nokkuð
mikil en 67% svarenda svöruðu í jákvæðari enda skalans frá 1-6. Þar af voru 37%
sem svöruðu að þeir væru mjög ánægðir með með hjálpartækin. Því miður er ekki
vitað hvers vegna þessi tæpu 33%, sem svöruðu í neðri helmingnum af skalanum,
eru ekki ánægð með hjálpartækin sín. Mögulega þyrfti meiri fræðslu.

Í lok könnunarinnar gafst svarendum möguleiki á að hafa skoðun á hvernig
þeir myndu vilja fá frekari upplýsingar um hjálpartæki. Þeim gafst möguleiki á
að gefa fleira en eitt svar. Enginn afgerandi munur var á svörum en 14% höfðu
ekki áhuga á frekari upplýsingum en svör þeirra voru ekki afgerandi í eina átt
hvað varðar notkun heyrnartækja eða annarra hjálpartækja. Mestur áhuga var
fyrir að fá blað sent heim eða að fá tölvupóst um hjálpartæki. Einnig var hátt
hlutfall sem vildi fá frekari upplýsingar í viðtali. Fæstir, en þó lítið færri
en þeir sem völdu hina kostina, vildu fá fyrirlestur varðandi hjálpartækin.
Kristbjörg Pálsdóttir
Heyrnarfræðingur, MSc