Skip to main content

Þjónusta Heyrnar- og talmeinastöðvar fellur EKKI niður !

Eftir að það spurðist út að Heilbrigðisráðuneyti legði til að fella brott sérlög um Heyrnar- og talmeinastöð, sem fyrirhugað er að fari í gegn á yfirstandandi þingi, hefur orðrómur farið víða um að leggja eigi stofnunina niður og að þjónusta hennar hætti.

Þetta er fjarri lagi og viðskiptavinir HTÍ þurfa ekki að óttast að þjónustan hverfi. Stefnt er að órofinni þjónustu þó að starfsemin færist úr sérstofnun og yfir í miðlæga heyrnarþjónustustöð innan vébanda Heilsugæslunnar.

Starfshópur sem skilaði tillögum til ráðherra í upphafi árs 2025 lagði til breytingar svo að tryggja megi bætta og skilvirkari heyrnarþjónustu hér á landi til framtíðar og þar komu fram ýmsar góðar tillögur sem lúta m.a. að menntun heyrnarfræðinga hér á landi, bættu regluverki, aukinni greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga í heyrnarbætandi aðgerðum o.m.fl.

Gömlu lögin um HTÍ sem sérstofnun voru löngu orðin úrelt og voru á skjön við þá starfsemi sem þar fer fram í dag og því nauðsynlegt að fella lögin úr gildi og endurskipuleggja opinbera heyrnarþjónustu til að bæta þjónustu við þennan stóra fötlunar-hóp á landsvísu.

Þjónusta okkar verður áfram á sama stað í nýju og glæsilegu húsnæði okkar í Hraunbæ 115 í Reykjavík og einnig á Akureyri en á næstu misserum mega viðskiptavinir eiga von á ýmsum fréttum um aukna og bætta þjónustu á öllum stigum heyrnar-heilbrigðisþjónustu hér á landi.

Starfsfólk Heyrnar og talmeinastöðvar vonast til að þjóna ykkur áfram á nýjum vettvangi þó að nafnið kunni að breytast eitthvað á næsta ári.